Tannheilsa og selíak
Rannsóknir hafa sýnt fram á að sum börn með ógreint selíak geta fengið skemmdir á glerungi fullorðinstanna. Tennurnar skemmast þegar þær eru að myndast svo þegar þær koma upp eru skemmdirnar þegar til staðar. Barnatennur myndast á meðan barnið er enn í móðurkviði og verða því ekki fyrir áhrifum af sjúkdómnum.
Ógreint selíak í bernsku veldur skemmdum
Glerungsskemmdir eru eitt af þeim sjálfsofnæmisviðbrögðum sem geta komið fram vegna glútenneyslu fólks með selíak. Þetta á þó ekki við um alla, aðeins lágt hlutfall barna fær þessar skemmdir samkvæmt Trond Halstensen, prófessor og lækni við Háskólann í Osló og yfirlækni við Lovisenberg Diakonale sjúkrahúsinu. Hann hefur verið fremstur í flokki í rannsóknum á sambands á milli glerungsskemmda og selíak.
Aðeins börn með virkt og ógreint selíak á þeim tíma sem fullorðinstennur myndast geta þróað með sér slíkar skemmdir, samkvæmt Halstensen.
Einkenni glerungsskemmda
Þessar skemmdir eru með ákveðin sérkenni. Þær birtast samhverft og geta verið allt frá lélegri steinefnamyndun, sléttu glerungsyfirborði með blettum af mismunandi stærð og lit, til dælda og stærri skemmda. Í alvarlegum tilvikum getur orðið verulegur efnamissir úr tönninni þar sem taugaendar eru berskjaldaðir. Í þessum tilfellum þarf að nota hálfkrónur eða krónur til að laga skemmdirnar.
Stundum virðast skemmdirnar ekki nægilega alvarlegar til meðferðar í æsku en síðar koma í ljós frekari veikleikar sem gera tönnina viðkvæmari, t.d. fyrir sýruskemmdum frá gosdrykkjum.
Það er mikilvægt að tannlæknar séu meðvitaðir um skemmdir sem selíak getur valdið, tannlæknirinn getur þá vísað á meltingafærasérfræðing sem getur staðfest selíakgreiningu, sé hún óstaðfest.
Fengið af heimasíðu Norsku selíaksamtakanna
