Hvað er selíak?
Selíak er sjálfsofnæmissjúkdómur sem veldur því að líkaminn ræðst á smáþarmana eftir neyslu á glúteni. Örlítil mylsna er nóg til að framkalla einkenni sem valda skemmdum á meltingarveignum og geta verið mjög sársaukafull.
Eina meðferðin við selíak er að borða glútenlaust fæði alla ævi.
Lágt hlutfall greindra á Íslandi
Hlutfall selíaksjúklinga á Íslandi er með lægsta móti í Evrópu, algengt hlutfall er 1-2% en hér á landi er hlutfallið lítið brot af því og grunur liggur á að þetta sé vegna vangreiningar. Selíaksamtök Íslands hvetja alla með eftirfarandi einkenni eða afleidda kvilla til að ræða við heimilislækni og athuga hvort að um selíak sé að ræða:
Einkenni
Einkenni selíak án meðferðar eru fjölbreytti, eftirfarandi eru nokkur dæmi:
Kviðverkir
Meltingartruflanir
Vannæring
Sár í munni
Járnskortur
Óreglulegar blæðingar
Seinn kynþroski
Liðverkir
Glerungsskemmdir
Ófrjósemi
Geðræn vandamál
Beinþynning
húðútbrot
Heilaþoka
Hármissir
Tengdir kvillar
Fólk með eftirfarandi sjúkdóma er líklegra en annað til að vera með selíak:
Sykursýki 1
Skjaldkirtilssjúkdómar
Sjálfsofnæmissjúkdómar
Laktósaóþol
Downs heilkenni
Turner heilkenni
Hringblöðrubólga/Dermatitis herpetiformis
Selíak getur komið fram sem húðútbrot og kallast þá hringblöðrubólga/dermatitis herpetiformis. Útbrotin koma fram með blöðrum og kláða, oftast á framhandleggjum, olnbogum og hnjám þó þau geti birst víðar. Ólíkt hefðbundnum selíak er meirihluti þeirra sem eru með hringblöðrubólgu án einkenna frá meltingarvegi. Hringblöðrubólga er algengari meðal karlmanna og birtist sjaldan hjá börnum. Hún er greind hjá húðlækni með sýnatöku af húð. Líkt og við hefðbundna greiningu á selíak þarf einstaklingurinn að hafa borðað glúten í nokkurn tíma áður en sýnið er tekið til að niðurstöðurnar séu marktækar.
Ef ekkert er aðhafst?
Ógreint selíak þar sem glútenneysla er regluleg getur leitt af sér fjölda annarra sjúkdóma og heilsukvilla. Þar má nefna vannæringu, hægan vöxt barna, beinþynningu, ófrjósemi, geðsjúkdóma og aðra sjálfsofnæmissjúkdóma.
