Nesti á ferðinni
Ef kokkurinn treystir sér ekki í verkið eða gesturinn sér ekki fram á að máltíðin verði örugg tekur fólk yfirleitt vel í að nesti sé með í för. Það minnkar stressið fyrir báða aðila.
Það er skemmtilegt að spyrjast fyrir um hvað verður boðið upp á og koma með svipaða glútenlausa útgáfu til að vera í sömu stemningu og aðrir. Þetta á hvað best við um börn, sem mikilvægt er að upplifi sig ekki útundan í fjölskyldunni eða vinahópnum.
Ef það er ekki líklegt til að ganga upp er ekki úr vegi að víkja að taka eitthvað með sem þykir sérstaklega gott svo gesturinn verði ekki matsár og njóti sín sem allra best.
Nesti á ferðinni
Það er allur gangur á því hversu margir glútenlausir kostir, ef nokkrir, eru í boði á flugvöllum, í flugvélum, í vegasjoppum og á lestarstöðvum. Það getur líka komið fyrir að þeir hreinlega seljist upp þar sem framboðið er gjarnan takmarkað. Margir selíaksjúklingar kjósa því að taka með sér nesti í ferðalagið, sérstaklega ef um lengri ferðalög er að ræða.
Dæmi um nesti sem auðvelt er að útbúa glútenlaust:
Smurðar glútenlausar samlokur
Grænmetissalat - ekki gleyma gafflinum (annars er oft hægt að fá að kaupa einnota hnífapör hjá veitingastöðum á flugvöllum/í lestum)
Ávextir og grænmeti á borð við banana, vínber, epli og litla tómata (hér ber að skoða reglur, það er óalgengt en sum lönd utan Evrópu leyfa ekki að ávextir séu teknir með inn í landið og því ekki víst að leyfilegt sé að taka þá með í flugvél, lest eða rútu sem er á leið þangað)
Hnetur og þurrkaðir ávextir - hafa ber í huga ef að jarðhnetur eru með í för gæti verið að beðið verði um að pokinn sé ekki opnaður sé manneskja með alvarlegt hnetuofnæmi í sama farartæki).
Þurrkaðar snakkpylsur og hráskinka sem er ekki kælivara
Kaldir núðluréttir ef það er ekki meiri sósa en svo að hún rétt hjúpi núðlurnar
Tilbúnar glútenlausar núðlusúpur, hægt er að útbúa sinn eigin grunn eða kaupa þær tilbúnar í boxum (flugfreyjur og fólk á kaffihúsum er nánast alltaf tilbúið að gefa soðið vatn ef það veit af því að það er fæðuofnæmi til staðar)
Grunnur að hafragraut - glútenlaust haframjöl, þurrkaðir ávextir eða hnetur, jafnvel kakó og svo bæta við banana þegar hann er soðinn - hvað sem hverjum finnst best - og bæta svo við sjóðandi vatni um 10 mínútum áður en hann er borðaður.
Hrökkbrauð eða glútenlaust kex
Niðurskorinn ostur
Álegg á borð við niðurskornar gúrkur, tómata, litlar sultukrukkur, smurost og hunang (undir 100ml ef farið er í flugvél)
Soðin egg
Glútenlaust bakkelsi - hafa ber í huga að ef þau innihalda fyllingu á borð við sultu eða súkkulaði gæti það tæknilega flokkast sem vökvi ef farið er í flugvél þó ekki sé algengt að gert sé athugasemd við það.
