Hvað má ég borða?
Af öllum spurningum sem koma upp í hugann eftir greiningu á selíaksjúkdómi er „hvað má ég borða?“ líklega sú sem sækir mest á.
Það er auðvelt að einblína á það sem má ekki, frekar en það sem má. Búðarferðir verða skyndilega eins og að þræða völundarhús, með mörgum stoppum þar sem rýnt er í agnarsmáar innihaldslýsingar sem leiða í ljós að ótrúlegustu vörur innihalda glúten. Skyndibiti verður allt annað en þægilegur og matarboð ekki síður. Umskiptin geta verið erfið og flókin og það er mjög eðlilegt að syrgja aðeins. En öll von er ekki úti, því fer fjarri lagi. Það er nóg eftir þó glúten sé ekki lengur á matseðlinum!
Kjöt og fiskur eru laus við allt glúten, kartöflur líka og margar sósur eru glútenlausar. Egg eru glútenlaus, sem og ávextir og grænmeti. Svo ekki sé talað um mjólkurvörur, skyr, ostar og smjör getur allt haldið sínum sessi á innkaupalistanum.
Glútenlaust brauðmeti, kex og pasta fæst í öllum helstu verslunum og það er auðvelt að velja þær í innkaupakörfuna í staðinn fyrir sambærilegar vörur með glúteni.
Hvað ber að varast?
Glúten er að finna í hveiti, rúgi og byggi og hafrar eru krossmengaðir nema annað sé tekið fram á pakkningunni. Það er líka að finna í undirtegundum þessara tegunda, eins og spelti, semolina, durum og fleira.
Það sem ber helst að vara sig á í verslunarferð eru unnar matvörur. Glúten á það til að fela sig á ólíklegustu stöðum sem aukaefni, en það er þá tekið fram á innihaldslýsingu. Þar má sem dæmi nefna einhverjar kryddtegundir og karrý, tilbúinn matur og forkryddað kjöt, soyasósa, súkkulaðistykki, ís (ef það er kex eða kökur saman við hann eða ef ísinn er framleiddur úr haframjólk og ekki er tekið fram að hann sé glútenlaus), slátur, pylsur, vegan “kjötvörur”, rækjusalat, sinnep, lyftiduft og fleira.
Samkvæmt íslenskum lögum ber matvælaframleiðendum skylda til að taka fram hvort að glúten leynist í vöru eða ekki, svo það ætti að vera hægt að treysta innihaldslýsingum. Sömu lög gilda líka í Evrópusambandinu, en málið flækist aðeins þegar verslað er í matinn utan þess og þá einfaldara að halda sig við hreina matvöru eða kynna sér reglugerðir landsins.
Hugmyndir að máltíðum
Morgunmatur
Skyr, jógúrt, glútenlaust morgunkorn og mjólk, þeytingar úr ávöxtum eða grænmeti, chia grautur eða hafragrautur úr glútenlausum höfrum, egg og beikon eru allt dæmi um morgunmat sem er glútenlaus og góður. Það er svo alltaf hægt að fá sér glútenlaust brauð, eða skella í lummur eða pönnukökur úr glútenlausu mjöli.
Hádegi
Það er fljótgert að gera glútenlausa súpu, og jafnvel hægt að kaupa þær tilbúnar. Salöt eru flest glútenlaus, nema það sé í þeim pasta eða brauðteningar, og það eru hrísgrjónanúðlur líka (svo framarlega sem þeim sé ekki velt upp úr soyasósu sem inniheldur glúten). Samlokur alltaf hentugur matur að grípa með sér á ferðinni, það þarf bara að skipta brauðinu út fyrir glútenlaust brauð. Megnið af tillögunum af morgunmat geta vel átt við sem hádegismatur. Svo er alltaf hægt að elda stórar kvöldmáltíðir og eiga afganginn í hádeginu daginn eftir.
Kvöld
Kvöldmaturinn er sú máltíð sem þarf að aðlaga hvað minnst. Kjöt, fiskur, kartöflur, baunir, grænmeti, allt er þetta glútenlaust. Það þarf bara að passa upp á að krydd og kraftur séu glútenlaus.
Þar sem glútenið leynist á kvöldmatarlistanum er alla jafna auðvelt að skipta því út. Það er enginn munur á því að baka upp jafning eða aðrar sósur með glútenlausu hveiti og venjulegu. Að velta kjöti eða fiski upp úr glútenlausu hveiti gefur hér um bil sömu niðurstöður og þegar því er velt upp úr venjulegu hveiti. Flestar verslanir eru með glútenlaust pasta, sem er mjög áþekkt venjulegu pasta. Svo er hægt að líta út í heim, indverskur matur er mjög oft náttúrulega glútenlaus, að undanskildu naanbrauðinu, sem og tælenskur og víetnamskur matur.
Eftirréttir
Eftirréttir þurfa alls ekki að detta af matseðlinum, ís, marengs, hveitilausar súkkilaðikökur, makkarónur, súkkulaðimús og búðingur eru t.d. dæmi um eftirrétti sem eru nánast alltaf glútenlausir. Hafa ber í huga að það þarf alltaf að skoða uppskriftir til að fullvissa sig um glútenleysið og skoða innihaldslýsingar á tilbúnum vörum, því sumir framleiðendur hafa þann leiðindavana að bæta hveiti eða kexi saman við matvörur. Það gæti líka verið að bakkelsi geti verið mengað af glúteni sé það bakað í venjulegu bakaríi, það ætti þá að vera tekið fram á innihaldslýsingunni.
