Hvað er glúten?

Glúten er prótein sem finnst í hveiti, byggi og rúgi og skyldum tegundum á borð við durum og spelti. Hafrar eru svo mengaðir af glúteni í framleiðslu og ræktunarferlinu að hlutfall glútens í höfrum er langt yfir öruggum mörkum fyrir fólk með selíaksjúkdóm (sé tekið fram á pakkningu að hafrar séu glútenlausir hafa þeir verið ræktaðir og pakkaðir í öruggu umhverfi).

Hveiti

Hveiti er uppistaða í fjölmargri matargerð. Það er t.d. að finna í brauði, kökum, pasta og í deigi til djúpsteikingar. Það finnst oft í steikarsósum, sojasósum, í kryddum og pylsum svo fátt eitt sé nefnt.

Rúgur

Rúgur er uppistaðan í rúgbrauði en það er einnig notað í kex, hollustuvörur og blandað við mysu til að hjálpa til við gerjun þegar súrmatur er gerður.

Bygg

Bygg er að finna í fjölda matvæla og drykkja. Þar má nefna bjór, brauð, malt, stundum í kjötsúpu, í morgunkorni á borð við kornflexi og sem viðbótarefni í súkkulaði (sem byggmalt).

Hafrar

Hafrar innihalda ekki glúten en innihalda keimlíkt prótein sem einstaka selíaksjúklingar eru viðkvæmir fyrir. Hafrar eru auk þess svo mengaðir af hveiti í framleiðsluferlinu að þeir innihalda mun hærra hlutfall af glúteni en öruggt er fyrir selíaksjúklinga að innbyrða. Því ættu selíaksjúklingar aldrei að borða matvöru sem inniheldur hafra nema tekið sé fram í innihaldslýsingu að hafrarnir séu vottaðir glútenlausir.