Skóli og frístundaheimili

Góð upplýsingagjöf til skóla/leikskóla/frístundaheimila er grundvöllur þess að  barnið upplifi sig öruggt í sínum daglegu aðstæðum. Mikilvægt er að skóli/leikskóli/frístundaheimili fái þau skilaboð að foreldrar séu alltaf tilbúnir í samstarf/samtal. Starfsfólk leggur sig alla jafna fram um að sjá til þess að börnin séu örugg en glútenlaust fæði er flókið og það er því mikilvægt að allir leggi hönd á plóg svo upplýsingar um þarfir barnsins séu réttar og að það fái sem besta þjónustu og næringu.

Tillaga að bréfi til skóla/frístundaheimila:

Barnið okkar er með selíak, sem er krónískur þarmasjúkdómur sem gerir það að verkum að barnið má ekki borða glúten né mat sem hefur komist í snertingu við glúten. Glúten er að finna í hveiti, rúgi, byggi og skyldum korntegundum á borð við durum og spelt, auk þess sem hafrar innihalda nógu hátt hlutfall af glúteni vegna krosssmits til að fólk með selíak megi ekki borða þá. Það er mikilvægt að lesa allar innihaldslýsingar vel til að fullvissa sig um að matvæli sem barnið fær séu glútenlaus.  

Þegar glútenlaus matur er útbúinn er mikilvægt að gæta vel að hreinlæti svo krosssmit verði ekki frá matvælum sem innihalda glúten. Öll ílát verða að vera hrein og allir yfirborðsfletir líka. Hnífar, sleifar, pizzaskerar og önnur ílát þarf að þvo með heitu vatni og sápu eða í uppþvottavél ef þau hafa verið notuð áður í matvöru með glúteni. Í heimilisfræði er mikilvægt að barnið geti verið með sér svæði þar sem hægt er að tryggja glútenlausar aðstæður þar sem það þurfi ekki að óttast krosssmit. Barnið getur t.d. ekki deilt skurðarbretti, vöfflujárni, samlokugrilli eða brauðrist með öðrum nemendum sem nota þessi heimilistæki fyrir mat sem inniheldur glúten. Hægt er að nota brauðristarpoka sem verja glútenlaust brauð frá krossmengun í brauðrist. Ákjósanlegast er að nota áhöld úr gleri eða stáli sem auðvelt er að þrífa eða að barnið sé með séráhöld og sitt eigið skurðarbretti.

Flestar uppskriftir er auðvelt að aðlaga svo þær verði glútenlausar með því að skipta hveiti, höfrum og öðru mjöli út fyrir glútenlausar hliðstæður, sem fást í flestum verslunum. 

Mikilvægt er að muna eftir börnum á sérfæði á tyllidögum. Ef gera á sér glaðan dag og panta pítsu, grilla pylsur eða bjóða upp á ís og köku þarf að hugsa fyrir því að boðið sé upp á sambærilegan kost fyrir börn á sérfæði eða bjóða upp á mat án ofnæmisvalda fyrir alla.  

Hér er að finna frekari upplýsingar um meðhöndlun glútenlausra matvæla og hér er listi yfir matvæli sem eru glútenlaus og matvæli sem innihalda eða geta innihaldið glúten.

Hlekkur á innihaldslista

Hlekkur á meðferð um glútenlaus matvæli