Glútenlaus Jól

Það er engin ástæða til að auka á jólastressið með áhyggjum af glúteni. Það er fjöldinn allur af frábærri fæðu í boði sem inniheldur ekki snefil af því og mikið af henni er fyrir á veisluborðinu.

Fyrir þá sem eru nýlega greindir geta jólin skiljanlega virst eins og yfirþyrmandi verkefni. Tilhugsunin um að breyta áralöngum hefðum er eðlilega óþægileg, en það þarf ekki að vera að það komi til þess.

Jólin kunna að virðast umvafin hveiti en þegar að er gætt og uppskriftir skoðaðar þá kemur í ljós að mikið af hefðbundnum jólamat og -snarli er náttúrulega glútenlaus. Og þar sem hefðin kallar á hveiti, er auðvelt að skipta því út fyrir glútenlausar hveitiblöndur. 

Smákökur

Það þarf ekki að bregða mikið út af vananum hvað smákökurnar varðar, þegar nánar er að gætt er fjöldi tegunda náttúrulega glútenlaus. Þar má nefna kransakökubita, kókostoppa, loftkökur, amaretti (einnig nefndar ítalskar makkarónukökur) kókoskúlur, franskar makkarónur og marengstoppar. Það eina sem þarf að hafa í huga varðandi marengstoppana er að ef þeir innihalda lakkrís, þá þarf að passa upp á að hann sé glútenlaus. Það borgar sig samt alltaf að lesa innihaldslýsingar ef kökurnar eru keyptar, því þó þessar séu alla jafna glútenlausar er möguleiki á því að framleiðandinn hafi ákveðið að bæta einhverju við eða að kökurnar hafi orðið fyrir krosssmiti. .

Það eru til glútenlausar útgáfur af flestum smákökuuppskriftum á internetinu svo glútenleysi þarf ekki að halda neinum frá því að baka uppáhaldssmákökurnar sínar. Þumalputtareglan í aðlögun uppskrifta er að það þarf ögn minna af glútenlausu hveiti, eða örlítið meiri vökva.

Svífi bakstursandinn ekki yfir vötnum bjóða margar verslanir upp á glútenlausar smákökur í kringum jólin, t.d. piparkökur og kókostoppa.

Aðalréttir og meðlæti

Aðalréttir eru minnsta málið. Kjöt, fiskur, kartöflur, grænmeti, allt er þetta glútenlaust! Svo rjúpan, kalkúnninn, purusteikin, hamborgarhryggurinn og brúnuðu kartöflurnar geta haldið velli. Það sem þarf að huga að eru kryddin sem eru notuð, en örfá krydd sem fást hér á landi innihalda glúten, eins er sojasósa notuð í sumar tilbúnar marineringar og hún inniheldur oftast glúten.

Flest hefðbundið meðlæti er glútenlaust, helsta undantekningin er kalkúnafylling, sem er stundum gerð úr brauði, sé hún heimagerð er ekkert mál að skipta því út fyrir glútenlaust brauð. 

Málið vandast örlítið þegar kemur að grænkerunum. Það er allur gangur á því hvort hnetusteikur innihaldi hveiti eða bygg. Mikið af „gervi“kjöti er búið til úr seitan, sem þarf að forðast eins og heitan eldinn því það er ekkert annað en hreint glúten.

Lausnin við öllum þessum mögulegu vandamálum er einfaldlega að lesa innihaldslýsingar, framleiðendum ber að taka það fram ef vara inniheldur glúten. Úrvalið í búðum er mikið, sérstaklega á þessum tíma árs, svo það ætti ekki að vera nokkuð mál að finna glútenlausar útgáfur af hvaða veislumat sem verður fyrir valinu. Eins er lítið mál að aðlaga uppskriftir að glútenlausu fæði með því að nota glútenlausar vörur í staðinn fyrir þær venjulegu eins og áður sagði..

Sósur

Sósuna með steikinni og jafninginn með hangikjötinu er hægt að baka upp með glútenlausu hveiti, aðferðin er nákvæmlega sú sama og bragðið líka. Nú, eða teygja sig í gamla góða sósujafnarann, sósujafnarinn frá Maizena er t.d. glútenlaus. Hafa þarf í huga að ef kjöt- eða grænmetiskraftur notaður í sósuna þarf að passa að hann sé glútenlaus, en hér [hlekkur] er hægt að lesa sér til um hvað ber að varast í innihaldslýsingum.

Laufabrauð

Að skipta glútenlausu laufabrauði út fyrir venjulegt á veisluborði er lítið mál, það tekur enginn eftir því. Glútenlaust laufabrauð lítur eins út og bragðast nákvæmlega eins og laufabrauð sem er gert úr hveiti. Hér [hlekkur] er uppskrift af glútenlausu laufabrauði.

Helsti munurinn er að það er örlítið erfiðara að skera það, deigið er viðkvæmara. Margir leysa það með því að skera bara í kökurnar en fletta því ekki. Aðrir fletta en fara mjög varlega að því.

Eftirréttir

Ris a l’amande, marengskaka, súkkulaðimús með karamellusósu og rjóma, hvítsúkkulaðimús með hindberjum, ís með berjum og súkkulaðisósu (t.d. úr daim, snickers eða toblerone, sem eru öll glútenlaus), pavlova og hveitilaus súkkulaðikaka eru nokkur dæmi um eftirrétti sem eru náttúrulega glútenlausir og tilvaldir á veisluborð hátíðanna.

Aðrir sem auðvelt er að breyta eru t.d. skyr- og ostakökur, þar þarf bara að skipta hafrakexinu í botninum út fyrir glútenlaust hafrakex. Uppskriftir af franskri súkkulaðiköku og kökum sem innihalda lítið hveiti þarf ekkert að aðlaga, þar er hveitinu einfaldlega skipt út fyrir glútenlaust hveiti.

Fyrir þá sem eru nenna ekki að eyða degi í bakstur er hægt að kaupa tilbúnar glútenlausar kökublöndur í flestum verslunum og oft glútenlausar frosnar kökur (á borð við Almondy).

Drykkir

Malt og jólaöl er bruggað úr byggi og er því miður ekki inn í myndinni fyrir þá sem þjást af selíaksjúkdómi og það er ekkert í glútenlausu hillunum sem bragðast alveg eins og malt og jólaöl. Það sem kemst næst því er dökkur glútenlaus bjór, fyrir þá sem eru nógu gamlir fyrir hann. Bragðið af honum blönduðum við appelsín minnir talsvert á blönduna góðu.

Þar sem malt og jólaöl eru gerjaðir drykkir er glútenið að hluta til brotið niður. Þetta gerir það að verkum að sumir þeirra sem eru viðkvæmir fyrir glúteni en ekki með selíak, geta drukkið það. Sömu sögu er að segja með bjór. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt fram á að þó glútenið sé brotið niður að hluta þá veldur það samt viðbrögðum í líkamanum og skemmdum á þörmunum hjá selíaksjúklingum, sem ættu því alls ekki að drekka þessa drykki.