Næring á glútenlausu mataræði
Glútenlaust mataræði hættir til að vera einhæft og skorta ákveðin næringarefni vegna þess hve lítið er um kornvörur. Það er auðvelt að festast í fari þægilegra matvæla sem eru örugg og gleyma að hugsa um hvort allar næringaþarfir séu uppfylltar. Tilbúin glútenlaus matvæli á borð við glútenlaust brauð og kex spila þar inn í, þessar vörur eiga það til að vera næringarsnauðar, trefjalitlar og með tiltölulega miklum sykri.
Það er frábært að hafa möguleikann á því að kaupa glútenlausar vörur, bæði til að grípa með ef þörf er á og uppfylla ákveðna nostalgíu en gott er að hafa í næringarstuðulinn í huga og vega upp á móti með öðrum hætti. Þar má nefna með vítamínum og bætiefnum en best er að velja frekar næringarríkar kornvörur sem eru náttúrulega glútenlausar á borð við bókhveiti, hirsi, teff og glútenlausa hafra.
Það er mikilvægt fyrir selíaksjúklinga að fylgjast með mataræðinu og horfa til þess að öll vítamín og næringarefni séu til staðar í fæðunni. Vítamínskorti og ójafnvægi í fæðu getur fylgt fjöldi kvilla, allt frá þreytu og óþægindum til alvarlegs heilsubrests.
Gott er að ráðfæra sig við næringarfræðing bæði í kjölfar greiningar til að auðvelda breytingar á mataræðinu og aftur seinna til að fara yfir kostinn og vera viss um að næringarþarfir séu uppfylltar.
