Börn og unglingar
Selíak þróast yfirleitt á barnsaldri en oft tekur mörg ár að fá greiningu. Þetta er m.a. vegna þess að selíak getur haft fjölda ólíkra einkenna, sérstaklega hjá börnum. Það er mikilvægt að fá greiningu sem fyrst til að koma í veg fyrir afleidda sjúkdóma og heilsubresti.
Einkenni til að leita eftir
Ef eitthvað af þessu á við barnið þitt er ástæða til að biðja lækni um að kanna hvort um selíak sé að ræða:
Viðvarandi óútskýrð kviðar- eða meltingarfæravandamál, vanþrif, langvarndi þreyta, óvænt þyngdartap, B12 vítamínskortur, tannskemmdir, almenn vanlíðan og hegðunarvandamál, pirringur, ættingjar með selíak, Downs heilkenni, Turner heilkenni
Ekki hætta glútenneyslu
Ef grunur er um að barn sé með selíak er mikilvægt að taka glúten ekki út úr fæðunni áður en farið er til læknis. Til að greiningar á blóði og vefsýnum séu marktækar þarf glúten að vera til staðar í fæðunni í a.m.k. sex vikur áður en sýni eru tekin.
Að hafa samband við skóla
Góð samskipti foreldra og skóla/frístundaheimila eru grundvöllur þess að barnið upplifi sig öruggt í skólaumhverfinu. Starfsfólk leggur sig alla jafna fram um að koma til móts við þarfir barnsins en glútenlaust fæði er flókið svo það er mikilvægt að foreldrar séu til staðar til að gefa ráð og aðstoða við uplýsingaöflun.
Barnaafmæli og heimsóknir
Félagslegar áskoranir fylgja sérfæði, sérstaklega fyrir börn. Með réttum undirbúningi og góðum samskiptum er hægt að létta undir og auðvelda þátttöku í félagsstarfi og uppákomum þar sem matur kemur við sögu.
