Að ferðast erlendis með selíak
Heimurinn er stór og selíak þarf ekki að vera nokkur fyrirstaða fyrir því að flakka horna hans á milli, það krefst bara örlítillar skipulagningar.
Lönd með hátt hlutfall auðveldust að heimsækja
Selíak sjúkdómurinn er misvel þekktur á milli landa, þekkingin fer vanalega eftir hversu hátt hlutfall íbúa er greindur með selíak. Lönd sem hafa hátt hlutfall er alla jafna auðveldara að heimsækja því starfsfólk í veitingageiranum er vant að þjónusta þennan hóp. Þar má nefna Noreg, Svíþjóð, Írland, Skotland, Ítalíu, Spán, Ástralíu, Nýja Sjáland og Argentínu, svo nokkur séu nefnd.
Fjöldi landa með mikið af náttúrulega glútenlausum mat
Þetta þýðir þó alls ekki að þar séu upptalin öll lönd sem auðvelt er að ferðast til með selíaksjúkdóm, því við þetta bætast lönd sem nota lítið af glúteni í sinni hefðbundnu fæðu. Þar má til dæmis nefna Víetnam, hluta af Tælandi, Indland og Eþíópíu.
Mikilvægt að miðla upplýsingum skilgreinilega
Það borgar sig alltaf að láta starfsfólk veitingastaða vita að um selíak sé að ræða til að vera viss um að máltíðin sé örugg, jafnvel þó ofnæmisvaldar séu merktir á matseðli (bæði til að koma í veg fyrir krossmengun og ef uppskriftirnar hafa breyst en ekki búið að uppfæra matseðilinn). Þessi samskipti eru gerð mun auðveldari með ferðaspjöldum (e. celiac travel cards/restaurant cards) sem útskýra sjúkdóminn á tungumáli heimamanna, en þau finnast víða á netinu og í smáforritum.
Mismunandi reglugerðir um innihaldslýsingar eftir löndum
Hafa ber í huga að reglur um innihaldslýsingar eru misjafnar eftir löndum. Innan Evrópusambandsins og löndum því tengdum, á borð við Ísland, má ekki kalla vöru glútenlausa nema hún innihaldi ekki yfir 20ppm af glúteni. Sömu sögu er að segja um Ástralíu, Nýja Sjáland, Kanada og Argentínu, þó sum þessara landa séu með lægra mark. Í mörgum öðrum löndum eru engar reglugerðir um notkun á merkingunni glútenlaust og því ekki alltaf hægt að taka mark á staðhæfingunni. Það er heldur ekki allstaðar sem framleiðendur eru skyldaðir til að taka fram á innihaldslýsingu hvort að varan innihaldi glúten. Það borgar sig að skoða reglur landsins er heimsótt, eða þá að halda sig við hreina fæðu, kjöt, fisk grænmeti og ávexti.
Fjöldi upplýsinga á netinu
Það er til fjöldinn allur af síðum og smáforritum til að auðvelda fólki með selíak lífið á ferðalögum. Þar má t.d. nefna Find me Gluten Free, CeliHack, Allergy Eats og fleiri. Það borgar sig einnig að skoða heimasíður selíaksamtaka sem mörg votta veitingastaði sem þau hafa þjálfað í meðferð matvæla til að tryggja öruggan mat fyrir fólk með selíak. Þar má t.d. nefna ítölsku selíaksamtökin, katalónsku selíaksamtökin, finnsku selíaksamtökin - lista yfir önnur samtök er að finna hér: [hlekkur á önnur selíaksamtök]. Það eru einnig til fjöldinn allur af Facebook hópum tileinkaðir ferðalögum með selíak almennt og svo glútenlausu líferni í hverju landi fyrir sig. Svo ekki sé talað um matarbloggara og áhrifavalda með selíak sem gott getur verið að skoða áður en lagt er af stað.
Skipulagning auðveldar upplifunina
Ferðalög til landa þar sem sjúkdómurinn er minna þekktur eru aðeins flóknari en alls ekki óyfirstíganleg. Í eldhúsum allra landa heimsins finnast réttir sem eru náttúrulega glútenlausir. Fólk með selíak ferðast ekki bara um allan heim heldur býr það um allan heim og er gjarnt á að deila reynslu sinni af veitingastöðum og verslunum á netinu, samfélagsmiðlum og í smáforritum.
Með því að leita að upplýsingum og umsögnum um veitingastaði og búa til lista yfir valmöguleika fyrir ferðalagið minnkar stressið og álagið til muna. Best er að hafa sem flesta möguleika skráða svo það sé ekki hætta á að sitja uppi með sárt ennið ef veitingastaður er fullbókaður eða lokaður. Það býður líka upp á ákveðinn sveigjanleika að binda sig ekki við fáa staði, sem gerir ferðalagið enn afslappaðra.
