Að fá greiningu

Fyrsta skref er að ræða við heimilislækni. Það er mikilvægt að fá greiningu á selíak hjá lækni. Bæði til að vera viss um hvort að um selíak eða glútennæmi án selíaks sé að ræða og til þess að læknirinn geti fylgst með öðrum áhættuþáttum sem fylgja sjúkdómnum.

Ekki hætta ekki að borða glúten

Það er mikilvægt að taka glúten ekki úr fæðunni áður en farið er til læknis og þar til gerð sýni hafa verið tekin. Sé einstaklingur þegar á glútenlausu fæði er engin leið til að greina sjúkdóminn nema hann taki glúten aftur inn í fæðið í 6-8 vikur fram að sýnatökum.

Næsta skref

Heimilislæknir pantar blóðprufu þar sem mótefni í blóðinu eru mæld. Í kjölfarið er einstaklingur oftast sendur í magaspeglun þar sem sýni eru tekin til að skoða ástand á þarmatotum. Séu þær skemmdar og jafnvel alveg flatar er ljóst að um selíak er að ræða.

Yngri börn eru ekki sendi í magaspeglun heldur er blóðprufa látin duga. Þá er tekin önnur blóðprufa eftir að barn hefur verið á glútenlausu fæði í 3-6 mánuði og ef gildin sem mæla selíak hafa lækkað er greining endanlega staðfest.

Eftirfylgni

Alþjóðlegar leiðbeiningar um meðferð selíak leggja til að selíaksjúklingar fari í eftirfylgni einu sinni á ári. Þar eru gildi mæld og skoðuð til að staðfesta að sjúkdómurinn sé óvirkur og engir fylgikvillar hafi komið upp.

Séu einkennin enn til staðar og ef blóðprufa sýnir há gildi mótefna er ráðlagt að senda sjúklinginn í magaspeglun. Þetta er sérstaklega mikilvægt ef búið er að útiloka að regluleg krossmengun sé orsök einkennana. 

Mælt er með því að læknir fari yfir einkenni, skoði hæð og þyngd (sérstaklega hjá börnum) ræði um mataræðið og vísi til næringarfræðings ef þörf er á. Þetta á við ef fæða er einhæf eða blóðprufur gefa til kynna annað hvort reglulegt krosssmit eða skort á vítamínum.

Lækni ber jafnframt að meta þörf á öðrum prófum eins og beinþykktarmælingu.

Selíak sem svarar ekki meðferð

Innan við eitt prósent selíaksjúklinga bregst ekki við meðferðinni, glútenlausu fæði (enska: refractory coeliac). Í þessum tilfellum eru skemmdir á þörmunum viðvarandi og lagast ekki þrátt fyrir að glúten sé tekið úr fæðunni. Sjúkdómnum er haldið niðri með lyfjum en hann er mun erfiðari að eiga við en selíak almennt.

Fjölskyldan í skoðun

Þegar einstaklingur greinist með selíak er ástæða til að nánustu skyldmenni séu einnig prófuð. Það eru hærri líkur á að þau hafi sjúkdóminn en gengur og gerist. Þetta á líka við um ættingja sem hafa engin einkenni eða heilsubresti. Hætta er á að eitthvað þeirra sé með óhefðbundin einkenni eða einkennalaus, sem getur þó leitt til alvarlegra afleiddra kvilla. 10% líkur eru á að nánustu ættingjar séu einnig með sjúkdóminn sem eru mun hærri líkur en almennt er í samfélaginu.