Áfengi og glúten

Það er hafsjór af upplýsingum á netinu um hvað er og hvað er ekki glútenlaust þegar kemur að áfengi og margar hverjar stangast á. Í grunninn er málið ekki svo flókið eins og sjá má í þessari grein, það þarf ekki að vera nokkur höfuðverkur að heimsækja ríkið eða panta á bar. 

Bjór

Bygg er algengasta uppspretta glútens í áfengum drykkjum og allra algengast í bjór. Nánast allur bjór er bruggaður úr byggi. Næstalgengasta kornið í bjórbruggun er hveiti og einstaka bjórar eru bruggaðir úr bókhveiti, og þar af leiðandi glútenlausir, eða blöndu og byggi og maís eða hrísgrjónum. Þeir síðastnefndu eru algengastir frá löndum þar sem maís og hrísgrjón eru algeng uppistaða í fæðunni og auðveldara að rækta en bygg. Þeir eru oft lágir í glúteni en ekki oft vottaðir svo það er erfitt að segja til um öryggi þeirra.

Glútenlaus bjór

Þetta hugtak hefur ekki sömu merkingu allstaðar í heiminum. Í Evrópu má kalla bjór glútenlausan ef í framleiðsluferlinu hefur verið bætt í bjórinn ensími sem brýtur glútenið að hluta til niður. Í mörgum öðrum löndum telst þetta ekki nægilegt niðurbrot til að bjórinn megi kallast glútenlaus og einstaka selíaksjúklingar sýna viðbrögð við bjórnum. Bjórinn ætti að vera öruggur en hver verður að hlusta á sinn líkama og finna hvað hann þolir.

Algengustu glútenlausu bjórarnir eru léttir bjórar og lagerar. Þeir hafa alla jafna ekki þurft ensím til að lækka glúteninnihaldið því próteinhlutfallið í vökvanum er svo lágt að þeir eru náttúrulega undir 20ppm, hlutfalli glútens í matvæli svo það teljist öruggt fyrir selíaksjúklinga. 

Margir með selíak drekka Tiger og Corona vegna þessa, en þar sem þeir eru ekki vottaðir glútenlausir og prófaðir reglulega gæti hlutfall glúten breyst á milli bruggana. Bygg eins og aðrar plöntur vex ekki nákvæmlega eins frá ári til árs eða milli svæða og próteinhlutfallið því ekki nákvæmlega það sama.

Við mælum með því að teygja sig frekar í vottaðan glútenlausan bjór sem er prófaður reglulega. Margir af innfluttu glútenlausu bjórunum eru ekki bara undir 20ppm heldur halda sig við enn lægra mark, 3ppm eða 5ppm.

Hafa ber í huga ef að bjórinn sem verður fyrir valinu er nærri mörkunum 20ppm getur reynst hættulegt að drekka mikið af honum, safnast upp þegar saman kemur.

Sterkt vín

Sterkt vín getur verið bruggað úr korni, ávöxtum og grænmeti - í raun hverju sem er sem inniheldur kolvetni. Þar sem reglulgerðir um innihald í áfengi eru ekki nærri því jafn strangar og í matvælum er erfitt að vita úr hverju vínið er bruggað en ef það ekki bragðbætt með einhverju sem inniheldur glúten skiptir það ekki máli. 

Allt hreint sterkt vín á borð við vodka, viskí, gin, búrbon og fleira er glútenlaust, þó það sé bruggað úr korni sem inniheldur glúten. Þetta hefur með framleiðsluferlið að gera. Vískí er t.d. yfirleitt bruggað úr byggi og rúg, sem bæði innihalda glúten. Þegar grunnvökvinn úr korninu hefur verið gerjaður er hann eimaður og prótein komast ekki í gegnum eimingarferlið. Glútenið verður eftir og aðeins bragðmikill vökvinn kemst áfram í gegnum ferlið og ofan í flöskurnar, án þess að glútenið fylgi með. 

Léttvín

Léttvín er nánast undantekningalaust án glútens. Það er ekkert í bruggferlinu sem að krefst aðkomu korns, enda vínið aðeins gert úr vínberjum. Það eru til einstaka undantekningar þar sem vín eru bragðbætt með aukaefnum, meðal annars byggmalti, og eru þá varla vín lengur heldur áfengir drykkir gerðir úr vínberjum. Þetta er mjög óalgengt, ekkert þessara vína fæst á Íslandi og ef byggmalti er bætt við vínið er það tekið fram á flöskunni.

Það eru greinar á netinu sem nefna notkun á hveitilími þegar víntunnur eru lokaðar, sem mengar vínið. Þar sem höfundur þessarar greinar er vínfræðingur sem starfar á Spáni og hefur aldrei séð þessa aðferð notaða er óhætt að segja að hún er mjög, mjög óalgeng ef hún er yfirhöfuð til ennþá. Flestir framleiðendur matvæla hafa stórminnkað eða hætt notkun hveitis þar sem það er ekki þörf eftir að hveiti komst á lista yfir algengustu ofnæmisvaldana. 

Kokteilar

Málið vandast þegar kemur að kokteilum, einfaldlega því innihaldið er svo fjölbreytt. Langflestir klassískir kokteilar innihalda þó ekki glúten. Það er einstaka líkjör sem inniheldur glúten en það er ekki algengt og best að spyrja barþjóninn til að vera viss. Annað sem ber að varast er vegan eggjahvíta, sem er stundum notuð á fínum kokteilastöðum í staðinn fyrir venjulegar eggjahvítur í drykki á borð við whisky sour o.fl. Þær eru stundum gerðar með glúteni, sem er þá próteinið sem kemur í staðinn fyrir eggjahvítefnið sem gerir froðuna ofan á kokteilnum fallega og stífa.